Þjónusta

Húseigendafélagið býður félagsmönnum sínum upp á þjónustu í húsaleigumálum sem tryggir öryggi í leiguviðskiptum og dregur úr fjárhagslegri áhættu vegna vanskila og skemmda á leiguhúsnæði. Lögfræðingar félagsins og aðrir starfsmenn eru sérfróðir á sviði leigumála. Þessi þjónusta er mjög hagkvæm miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru. 


Húseigendafélagið tekur að sér gerð  leigusamninga, miðlar reynslu sinni og gefur upplýsingar um réttindi og skyldur aðila, lagaatriði og ráðstafanir, s.s. tryggingar o.fl. Við gerð leigusamnings er innifalin könnun á skilvísi leigjenda. 
Húseigendafélagið aðstoðar einnig leigusala þegar vandamál koma upp á leigutímanum eða við lok hans, t.d. vanskil á húsaleigu, greiðsluáskorun, riftunaryfirlýsing, uppsagnir o.fl. 

Kostir þess að Húseigendafélagið sjái um gerð löggilts leigusamnings: 

  • Húseigendafélagið sér til þess að leigusamningur leigusala sé þannig úr garði gerður að hann verndi hagsmuni hans þegar á reynir og að tryggingar fyrir leigufjárhæð og/eða skemmda sé fullnægjandi. 
     
  • Húseigendafélagið leiðbeinir leigusölum í rétta átt hvað úttektaraðila á leiguhúsnæði varðar. 
     
  •  Leigusala og leigutaka býðst að skrifa undir leigusamning á skrifstofu Húseigendafélagsins.

 

•    Fyrir gerð húsaleigusamninga um íbúðarhúsnæði er lágmarksþóknun kr. 36.000.- og er þá miðað við 2 tíma lögfræðivinnu. Innfaldar eru uppflettingar á vanskilaskrá. 


•    Sé um aukaþjónustu að ræða, t.d könnun á skilvísi leigjenda og yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð, er tekin viðbótarþóknun sem miðast við kostnað og ofangreint tímagjald. 


•    Fyrir leigusamninga um atvinnuhúsnæði er lágmarksþóknun kr. 58.000.-, þ.e. miðað er við 4 tíma lögfræðivinnu. 


•    Þóknun fyrir uppsagnir, leigugreiðsluáskoranir, riftunaryfirlýsingar og þess háttar orðsendingar og tilkynningar er miðuð við tíma og tímagjald og er lágmarksþóknun kr. 12.500.- til 14.000.-


•    Fyrir rekstur útburðarmála er þóknun miðuð við tímagjald, kr. 14.000., með 50% álagi

Húseigendafélagið hefur ávallt stuðlað og barist fyrir auknu öryggi og festu á sviði 

húsaleigu og heiðarlegum viðskiptum og heilbrigðum leigumarkaði. Félagið barðist fyrir réttarbótum á þessu sviði og á það stóran þátt í núgildandi húsaleigulögum. Núgildandi lög gjörbreyttu réttarástandinu og höfðu í för með sér verulegar réttarbætur bæði fyrir leigusala og leigjendur og leigumarkaðinn í heild.

Það er og hefur verið stefna Húseigendafélagsins að leiga sé og eigi að vera einn af sjálfsögðum valkostum í húsnæðismálum. Fjárhagslegar, rekstrarlegar og skattalegar forsendur hafa enn ekki skapast að fullu en þó hefur ýmislegt færst í jákvæða átt í þeim efnum. Þó virðist stöðugur leigumarkaður eins og þekkist í nágrannalöndum okkar ekki vera alveg á næsta leiti en verður vonandi til á næstu árum. Það er brýnt að fasteignir, þ.m.t. leiguhúsnæði, verði vænlegur og samkeppnisfær fjárfestingakostur en til að svo megi verða þarf að búa fasteignarekstri viðunandi skilyrði skattalega og á annan hátt. Með því má auka framboð á almennu leiguhúsnæði og skapa forsendur og skilyrði fyrir eiginlegum og stöðugum leigumarkaði. Fyrir því mun Húseigendafélagið berjast áfram. 

Hér má nálgast nýjustu útgáfu húsaleigulaga nr. 36/1994

 

Húseigendafélagið vekur athygli á húsfundaþjónustu félagsins, sem felur í sér ráðgjöf og aðstoð við húsfundi. Um er að ræða alhliða húsfundarþjónustu, þ.e. lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð við fundarboð og tillögur og gagnaöflun. Tekin er mjög sanngjörn þóknun fyrir þessa þjónustu, sem miðast við hóflegt tímagjald. Húsfélög þurfa að vera í Húseigendafélaginu til að fá þessa þjónustu eða tillaga um félagsaðild sé á dagskrá fundarins. 

Lögmaður með sérþekkingu annast fundarstjórn og ritun fundargerðar er ýmist í höndum lögfræðings eða laganema.


Séð er fyrir fundarhúsnæði enda brýnt að húsnæði sé viðunandi og henti til funda.


Þjónustan tryggir lögmæta fundi og að rétt sé staðið að töku ákvarðana en á því vill oft verða misbrestur með afdrifaríkum afleiðingum. 

 


Á aðalfundum eru gjarnan teknar ákvarðanir um dýrar framkvæmdir og ráðstafanir, sem hafa í för með sér miklar skuldbindingar fyrir húsfélög og veruleg fjárútlát, sem oft nema hundruðum þúsunda og stundum 1 til 2 milljónum fyrir hvern eiganda. Það er almennt forsenda fyrir lögmæti ákvörðunar um viðhaldsframkvæmdir og fyrir greiðsluskyldu eigenda, að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi sem er rétt og löglega boðaður og haldinn.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögum gilda ákveðnar reglur um töku ákvarðana. Ákvörðun um sameiginleg málefni skal tekin á húsfundi, þ.e. aðalfundi eða almennum fundi. Það eru til mörg dæmi um húsfélög og stjórnarmenn þeirra, sem hafa orðið fyrir tjóni og skakkaföllum vegna þess að kastað var til höndum við undirbúning og framkvæmd húsfunda.

 

•    Húsfélög sem eru í félaginu eða samþykkja að ganga í það á fundinum greiða að lágmarki kr. 85.000.-, auk útlagðs kostnaðar og salaleigu. 

•    Sé óvenju mikil vinna við undirbúning fundar og fundarhaldið reiknast viðbótarþóknun samkvæmt tímagjaldi, með eða án álags. Gildir það einnig um fjölmenna og langa fundi. 

•    Framkvæmdarstjóri getur þegar sérstaklega stendur á heimilað að húsfélagi sem ekki er í félaginu verði veitt húsfundaþjónusta. Komi til þess skal þóknun fyrir þjónustuna vera allt að tvöfalt hærri en fyrir húsfélög í félaginu. Sama gildir ef tillag um inngöngu í félagið er felld á fundi. 

Húseigendafélagið hefur á undanförnum árum veitt húsfélögum ráðgjöf og aðstoð við húsfundi og m.a. haft á boðstólnum sérhæft hefti með ítarlegum leiðbeiningum og skýringum en greinilega er þörf á meiri og víðtækari aðstoð.


Þótt það virðist ekki vera mikið vandaverk að halda húsfundi, sem standast lagakröfur og eru bærir til að taka lögmætar ákvarðanir, þá reynist það oft þrautin þyngri.


Þeim húsfélögum sem vilja hafa allt á hreinu í þessu efni og leita aðstoðar Húseigendafélagsins fer fjölgandi með hverju árinu. Þrátt fyrir það fjölgar líka stöðugt málum þar sem vandræði og deilur hafa risið og rekja má til mistaka við ákvarðanatöku og fundahöld.  Má af öllu ráða að þörfin á meiri og frekari þjónustu við húsfélög á þessu sviði sé brýn og er þeirri nýjung, sem hér er kynnt, ætlað að svara þessari þörf.


Þess vegna og til að stuðla enn frekar að öryggihúsfriði og traustum húsfundum býður Húseigendafélagið húsfélögum á höfuðborgarsvæðinu upp á nýja og aukna þjónustu í þessu efni. Í því felst að aðstoða stjórnir húsfélaga við undirbúning fundafundaboðdagskrátillögur o.fl. Þá felur þjónustan í sér fundarstjórn og ritun fundargerðar.


Frá Húseigendafélaginu koma að hverjum fundi fundarstjóri og fundarritari. Fundarstjóri er lögmaður, sem hefur þekkingu, þjálfun og reynslu í fundahöldum ásamt þekkingu á sviði fjöleignarhúsamála. Lögfræðingar Húseigendafélagsins, sem eru sérfróðir í málefnum fjöleignarhúsa, koma einnig að þjónustunni og eru ráðgefandi um öll atriði hennar. 


Með því að nýta sér húsfundaþjónustuna mega húsfélög, eigendur og viðsemjendur húsfélaga treysta því, að húsfundur sé lögmætur og ákvarðanir hans séu teknar með réttum hætti og að fundarefnin hljóti afgreiðslu í samræmi við lög og fundarsköp. Þá má einnig fullyrða að fundur, sem þannig er undirbúinn og stjórnað verði að öllu leyti betri fundur, málefnalegri, markvissari og árangursríkari.


Fyrir þjónustuna er tekin mjög sanngjörn þóknun, sem miðast við hóflegt tímagjald og þann tíma, sem í verkið fer. Hér er boðin fram sérþekking, kunnátta og reynsla og er gjaldið fyrir þjónustuna lágt í ljósi þess og einnig þegar haft er í huga að hún fyrirbyggir deilur og fjártjón. Það er því mikið hagsmunamál fyrir alla eigendur að húsfundir séu rétt haldnir þannig að ákvarðanir þeirra verði ekki vefengdar síðar með þeim leiðindum og fjárhagslegu skakkaföllum sem því fylgir. Það getur því sannarlega orðið húsfélagi mjög dýrkeypt að spara sér ráðgjöf og aðstoð við húsfundi.

Húseigendafélagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn sína á þeim réttarsviðum, sem varða fasteignir og eigendur þeirra. Lögfræðiþjónustan hefur verið þungamiðjan í starfsemi félagsins síðustu áratugi. Býr félagið yfir mikilli og sérhæfði þekkingu og reynslu á þessum sviðum lögfræðinnar. Fyrir lögfræðiþjónustuna er tekin þóknun samkvæmt tímagjaldi, sem er verulega lægra en hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Félagsgjaldið er því mjög fljótt að skila sér til baka með því og það oft margfalt. 
 

Eftirtaldir málaflokkar koma aðallega til kasta lögfræðiþjónustunnar:

I.    Fjöleignarhús og eigendur þeirra, húsfélög, samskipti eigenda o.fl.

II.    Fasteignakaup, einkum gallamál

III.    Húsaleigumál 

IV.    Mál vegna vanefnda byggingaraðila og verktaka við framkvæmdir 

V.    Málarekstur fyrir kærunefnd húsamála og aðstoð   við rekstur mála í stjórnsýslunni 

VI.    Grenndarmál af ýmsum toga


Lögfræðiþjónustan er mjög eftirsótt og því þarf að setja henni ákveðnar skorður. Hún er aðallega hugsuð sem ,,fyrsta hjálp“, þ.e. að aðstoða félagsmenn við að skilgreina vandamál sín og átta sig á réttarstöðu sinni og leiðbeina þeim veginn áfram. Ef mál vinda upp á sig og verða viðamikil og tímafrek, þá verður félagið að meginstefnu til að vísa þeim til starfandi lögmanna. Rekstur dómsmála fellur almennt utan ramma lögfræðiþjónustu félagsins. Eftirspurn eftir lögfræðiþjónustunni er mikil og algengt er að tugir nýrri mála berist í viku hverri. Sum erindi eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í einum viðtalstíma, en flest kalla þau á meiri vinnu, yfirlegu, rannsóknir, gagnaöflun, úrvinnslu, skjalagerð og skriftir, bréfaskriftir, álitsgerðir, fundahöld o.fl. Vinna við einstök mál getur því verið frá hálfri klukkustund eða jafnvel minna og allt að mörgum klukkutímum eftir eðli og umfangi. 

 

•    Tímagjaldið er kr. 14.000.- en fyrir fyrsta viðtalstíma (30 mínútur) og verk sem taka 30 mínútur eða skemmri tíma er þóknun kr. 12.500.-

•    Fyrir lögfræðivinnu utan skrifstofu og/eða utan venjulegs vinnutíma reiknast allt að 50% álag á tímagjaldið. 
•    Svör við fyrirspurnum sem berast í tölvupósti eða símleiðis eru almennt gjaldfrjáls. Sé fyrirspurn hins vegar beint til lögfræðings er tekið gjald fyrir svarið. 
•    Ef viðtalstími er bókaður en ekki nýttur, og forföll eru ekki boðuð, áskilur félagið sér rétt til þess að innheimta gjald fyrir tímann. Ef viðkomandi á inni viðtalstíma, verður hann felldur niður í staðinn. 
•    Yfirleitt er miðað við 1 – 4 klukkustunda vinnu við hvert mál. Séu mál umfangsmeiri og tímafrekari falla þau almennt utan marka lögfræðiþjónustunnar og er þeim þá vísað til starfandi lögmanna enda er félagið ekki lögfræðistofa heldur hagsmunafélag sem veitir félögum sínum niðurgreidda lögfræðiaðstoð að ákveðnu marki. 

Undanfarna tvo áratugi hefur það verið þýðingarmesti þátturinn í hagsmunabaráttu félagsins að vinna að réttarbótum á þeim réttarsviðum sem snerta fasteignir og eigendur þeirra. Á því sviði hefur félagið unnið marga góða sigra húseigendum til hags og heilla. Er það fyrst að nefna gildistöku laga um fjöleignarhús og húsaleigulaganna í ársbyrjun 1995, en félagið átti frumkvæði að samningu og setningu þeirra. Formaður félagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., er höfundur laganna um fjöleignarhús og jafnframt aðalhöfundur nýrra húsaleigulaga. Auk þess samdi Sigurður reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, sem tók gildi um áramótin 2000 og 2001 og hafði miklar réttarbætur í för með sér. 

Áralöng barátta félagsins fyrir setningu laga um fasteignaviðskipti bar árangur á árinu 2002 þegar Alþingi setti í fyrsta sinn lög um fasteignakaup. Fram að þeim tíma höfðu ekki gilt sérstakar skráðar reglur á þessu mikilvæga réttarsviði, heldur byggðist réttarstaða manna á ýmsum óskráðum meginreglum og dómafordæmum. Fyrir vikið gat réttarstaðan í ýmsum tilvikum verið óljós. Með setningu vandaðra og ítarlegra laga um fasteignakaup var margs konar réttaróvissu því eytt og hefur vafatilvikum og dómsmálum fækkað í þessum málaflokki. Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., formaður Húseigendafélagsins, vann að gerð laganna en höfundur þeirra var Viðar Már Matthíasson lagaprófessor og dómari við Hæstarétt Íslands. 

PANTA ÞJÓNUSTU


Ágæti félagsmaður til að panta þjónustu, vinsamlega skráðu þig inn á innrasvæði heimasíðunar.
Þú getur sótt um aðgang að innrasvæði síðunnar á forsíðu.


Panta húsfunda-þjónustu